Nú í sumar höfum við tekið nokkur lítil, en árangursrík, dugnaðarköst.

Í einu þeirra var steinhæðin löguð hressilega til.

Í öðru var settur upp skjólveggur og pallur, ásamt með buslupotti fyrir börnin.

Nú stendur yfir enn eitt kastið. Í dag var settur upp skólveggur á SV-jaðri lóðarinnar, og nú skal tekið til við að planta þar út gróðri.

Ég nefnilega bað tengdapabba að sjá af nokkrum plönturæflum til mín, einhverju til að fegra og bæta aðeins með.

Sendingin kom, og voru það ca 70 plöntur, allt frá skriðlægum smáblómum til allstórra runna, trjáplantna og rósa.

Ekki er stefnan að láta gróðurinn deyja sínum drottni þannig að nú er ekkert annað að gera en að snúa öllu á haus og koma þessu vel fyrir.

Myndir verða birtar fljótlega þar sem afraksturinn og breytingarnar munu vonandi sjást.