Í dag var Birkir fermdur.

Athöfnin var í Kálfatjarnarkirkju, undir tryggri stjórn klerksins Carlosar, með dyggri aðstoð Jóa meðhjálpara. Krakkarnir, 5 að tölu, 4 sætar stelpur auk Birkis, stóðu sig vel og allt gekk þetta ljómandi vel.

Að aflokinni athöfn var herjað heim á leið, til að taka á móti gestum. Ágætar heimtur voru í gestasmölun, og í dagslok höfðu 49 kvittað fyrir kaffinu í gestabókina. Nú tekur við að koma húsinu og heimilishaldinu í eðlilegt horf eftir atgang síðustu daga, og skal því lokið fyrir mánudagsmorgun.

Krakkarnir eru komnir í páskafrí úr skólanum, þannig að nú verður hægt að níðast á þeim við að rétta fram hjálparhönd við heimilisstörfin, þar sem mamma þeirra er orðin ósköp lúin eftir 8 mánaða meðgöngu í sjöunda sinn.