Já það var stúlka! 3380 gr, 50 cm fædd 02:30.
Um miðnættið kom Anna Rut ljósmóðir. Henni þótti allt vera komið í slíkan gír að hún hóaði í Guðrúnu vinkonu sína og vinnufélaga að koma og aðstoða, ef þyrfti. Skömmu síðar renndi Guðrún í hlað, og gátu leikar þá hafist. Allt gekk þetta eins og samkvæmt uppskrift, hríðar sem jukust og hörðnuðu, og leiddu á endanum til fæðingar sem gekk stórvel.
Marín Ásta var viðstödd og veitti aðstoð, hugrökk og brött, þó ekki litist henni alltaf jafnvel á atið.
Við erum enn aðeins að jafna okkur á því að röðin var brotin.
Hingað til hafa strákar komið á víxl við stelpur, og kveðið svo rammt að því að það hvarflaði aldrei að okkur að annað gæti verið en að hér væri strákur á ferðinni. Ekki svo að skilja að við séum ósátt við stelpu, bara gapandi af undrun; hvernig gat þetta gerst?
Nú er að finna til nafn á litlu dömuna, eitthvað fallegt, eins og hún sjálf.
Set hér inn færslu þegar það finnst.