Er ekki kominn tími á smá blogg?

Ég hef bara ekki nennt að setjast hérna niður og blogga síðan við fluttum, auk þess sem tíminn hjá manni hefur nú kanski ekki verið neitt sérstaklega mikill.

Við erum sem sagt flutt. Komin með ADSL og símann tengdann (bara gamla góða símanúmerið að sjálfsögðu) og næstum því búið að taka upp úr öllum kössum. Þeir kassar sem eftir eru eru aðallega með dóti sem fylgir skrifstofunni minni en það á eftir að gera einhverjar ráðstafanir varðandi hana. Síðan eru einnig kassar sem í er svona dót sem maður á kanski bara eftir að henda, allavega fara í gegn um vel og rækilega og velja það besta úr og henda rest. Það er nefnilega aldrei að vita nema maður finni gullmola innanum í svona kössum.

Síðastliðna helgi var svo haldið upp í Borgarfjörð til að vera við brúðkaup þeirra Guðbjargar og Magnúsar. Þar var gifting undir berum himni og rétt sluppum við við slagveðursrigningu sem tók sér smá pásu rétt á meðan sýsli splæsti hjúin saman.

Svo eru það tíðindi af henni Önnu litlu. Í síðustu viku uppgötvuðum við að hún var allt í einu komin með brunablöðru á hægri öxlina. Þetta var bara svona lítil blaðra þarna á þriðjudagsmorgni. Eingin vissi hvernig þetta hafði komið til. Á miðvikudagskvöld var blaðran sprungin og sár komið í staðinn á stærð við eyrað á barninu! Það var því ákveðið í skyndi að bruna með Önnu á læknavaktina í Smáranum. Læknirinn sem tók á móti okkur þar gat lítið gert en sendi okkur á Bráðamóttöku barna í Landsspítalanum morguninn eftir. Þar var Anna skoðuð af nokkrum læknum og sýni tekið og enn var á huldu ástæða þessa undarlega sárs á öxlinni hennar. Það var þó úr að búið var um sárið og okkur sagt að koma með hana á hverjum degi í umbúðaskipti sem og við höfum gert.

Þegar Anna kom á Spítalann í dag var sárið hins vegar nær alveg gróið þannig að hún þarf ekki að koma aftur. Hún þarf hinsvegar að fá krem á öxlina til að halda svæðinu mjúku svo það springi ekki, auk þess sem húðin þar er svo viðkvæm.

Á meðan öllu þessu stóð var Anna hin rólegasta, sagði hæ og bæ við alla sem hún sá, og var næstum því alveg sama þegar verið var að pota í hana. Það sem henni þótti verst var þegar það þurfti að halda henni fastri svo væri hægt að koma umbúðunum sómasamlega á hana. Henni þótti líka vont þegar verið var að taka umbúðirnar af henni í fyrsta skiptið en þær höfðu verið límdar vel og rækilega á með plástri. Þess vegna var brugðið á það ráð að festa umbúðirnar þannig að það þurfti ekkert að líma á hana.

Ég set kannski inn einhverjar myndir síðar þegar ég hef meiri tíma….