Síðustu daga hefur hún Anna litla verið að slefa enn meira en venjulega, svo mikið að það er hægt að vinda peysurnar hennar og samfelluna. Auk þess má sjá vatnsflauminn með berum augum því hann hefur verið næstum því “none-stop” allan daginn.

Í gærkveldi kom svo skýringin á öllum þessum vatnsaga.

Hún Anna er komin með tönn númer sjö, og átta! Nánar tiltekið eru þetta jaxlar, báðir í efri góm, annar hægra megin og hinn vinstra megin.

Í tilefni af þessum merku tímamótum læt ég fylgja með nokkrar myndir af Önnu. Á efri myndunum sést Anna ganga á milli stóru sistkyna sinna, Helga og Marínar. Þessar myndir voru teknar í lok Apríl en þá var Anna að byrja að sleppa sér. Núna ráfar hún um allan daginn, syngjandi í þokkabót, nema kannski þegar hún borðar eða sefur.

Á neðri myndunum er svo Anna sitjandi við matarborðið, sem er hin uppáhalds iðja hennar (það að borða), og að sjálfsögðu varð að hafa eina mynd þar sem sést í tennurnar, þó svo að þessar séu “gamlar”. Það er kannski svolítið erfitt að mynda þessar nýju. 😉