Já, ég er að fara í heimsókn í Danaveldissýslu. Þetta er bara svona konuhelgarferð sem tekur aðeins nokkra daga, eða frá fimmtudegi til sunnudags. Ferðin var ákveðin í skyndi eftir að þær Björg og Hildur, systur míns heittelskaða, komust að því að hún Adda amma, (amma þeirra og langamma barnanna minna) hefur aldrei komið til Köben.

– ” og ég ætla sko að komast þangað áður en ég dey!” tjáði amman þeim.

Björg hringdi í mig einn morguninn í febrúar, þar sem ég var á kafi í verkefni og þar að auki með heitan viðskiptavin í MSN viðtali. Hún spurði hvort ég væri ekki til í að koma með og bjóst við að þurfa að tala mig til og telja upp milljón og eina ástæðu fyrir því að ég kæmi með. Þar sem ég stóð við símann með fyrrgreind verkefni öskrandi á mig auk tvífættu verkefnanna minna, Önnu og Stefáns, kallandi eftir athygli mömmu sinnar, þá var svarið frá mér bara stutt og fljótlegt.

– “Já já, ekkert mál!”

….og þess vegna er ég á leiðinni í Danaveldi.

Núna er bara að vona að þeir sem heima sitja reddi sér og sakni mín ekki um of. Já og gleymi ekki að taka til eftir sig þegar mamma er ekki til staðar til að skipa fyrir. Það er nefnilega ekkert leiðinlegra en þegar það bíður eftir manni risavaxin ruslahrúga þegar maður kemur heim eftir svona frí.

Ég læt fylgja með þessarri færslu mynd af henni Tinnu okkar í glöðum leik í Vogafjörunni. Hún er jú einu sinni af tegundinni Stóri DANI (Þó svo að tegundin sé víst upprunin í Þýskalandi.)