Hún Molly, ein af þeim sem er á leiðinni á IceWeb 2006, bloggaði um daginn um blogg og var að velta því fyrir sér fyrir hverja fólk er að blogga. Meðal annars spyr Molly; “Who do you blog for?“.

Ég er ekki sá bloggari sem bloggar á hverjum degi eða jafnvel annan hvern dag. Ég blogga bara þegar mig langar til þess. Þó svo að ég fái ekkert mikið af ‘commentum’ þá veit ég að það er þó nokkuð um heimsóknir, bæði af fólki sem þekkir mig og fólki sem þekkir mig ekki neitt… Þá er ég að tala um endurteknar heimsóknir, eða fólk sem kemur aftur og aftur. Þetta get ég lesið úr loggunum sem ég skoða reglulega þó mest megnis til að fylgjast með einhverjum óæskilegum heimsóknum og líka til að skoða virkni vefjarins. Ég heyri til dæmis oft frá fólki sem þekkir okkur fjölskylduna en er kannski ekki í daglegu sambandi við okkur: – “Ég las það á vefnum ykkar að….”

Það kannski taka margir sem þekkja okkur eftir því að hér er alls ekki skrifað um allt það sem er í gangi hjá okkur. En þó svo að fólk sé að blogga þá er það nú kannski ekki raunin, það er einfaldlega sumt sem maður talar ekki um. En ég er ekki að tala um svoleiðs, þó svo að fátt sé um þannig hluti okkar megin kannski…

Líklegast þó er aðalástæða þess að ég er að þessu að mér finnst bara svo óendanlega gaman að leika mér hérna. Þá er ég ekki að tala um þessi skrif mín hér, heldur forritunina og myndvinnsluna á bak við vefinn. Ég held nefnilega að ef ég gæti ekki farið inn á bakvið og prufað nýja hluti og/eða breytt hlutum eftir mínu höfði að þá væri ég löngu hætt að blogga.

Ég skal þó fúslega viðurkenna það hér og nú að það er líka alltaf gaman að fá ‘comment’ frá gestum, og auðvitað mættu þau vera fleyri þar sem það er alltaf gaman að heyra frá ykkur, hver svo sem þið eruð, þannig að… ekki vera feimin! 😉

…svo langar mig til að spurja ykkur sem bloggið…. Hvers vegna bloggar þú?