Mig langar svo til að skrifa eitthvað skemmtilegt hérna. Það bara er einhvern veginn þannig að ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug þá er ég ekki við tölvuna. Þegar svo loksins ég kemst að henni þá er ég auðvitað löngu búin að gleyma öllu.

Þar sem það er ekki leyndarmál að ég stunda umræðurnar á Barnalandi, skrifa þó ekki mikið sjálf en les þar mikið, þá get ég upplýst að þetta vandamál mitt, þ.e.a.s að vera gleymin, er alls ekki einsdæmi. Á Barnalandi skjóta oft og iðulega upp umræður þar sem mömmur kvarta undan því að þær eru orðnar svo gleymnar og að þeim finnist að þetta verði verra og verra með hverju barni.

Miðað við það að hin venjulega móðir eignist kannski tvö til þrjú börn (sem er nokkuð há tala meðað við þessa venjulegu vísitölu fjölskyldu) og að þetta vandamál sé þeim virkilega til trafala, hvernig haldið þið þá að sé komið fyrir mér, sem á sex stykki? Þetta segir mér að í raun ætti ég að vera löngu orðin hælis matur vegna gleymsku minnar og að öllum líkinum ætti ég að vera löngu búin að gleyma hvað ég heiti og/eða hvar ég eigi heima.

Ekki er nú þessi móðurkölkun hjá mér orðin svo slæm enn þá, en samt jaðrar þetta við að vera orðið alvarlegt vandamál þótt ergjandi sé. Ég hef þó ekki oft lent í því að finna óhreinu sokkana inni í ísskáp eða brauðið úti á snúru. Ég játa þó að kaffið hefur einstaka sinnum lekið út um allt borð, já eða verið glært í könnunni, og þvotturinn komið þurr og óhreinn úr þvottavélinni.

Ég hef, alla vega á seinni árum, átt frekar erfitt með að muna það sem ég les og/eða heyri. Til dæmis les ég oft eitthvað sem mér finnst virkilega áhugavert sem ég vil muna seinna, og þá oft eitthvað í samandi við vinnuna mína. Þá verð ég að gjöra svo vel að leggjast yfir efnið og lesa það mjög oft yfir og helst að rifja það upp á hverjum degi í þó nokkurn tíma til þess að það ‘festist inni’.

Stundum dugar það jafnvel ekki til því að þegar ég þarf á þessum upplýsingum að halda, til dæmis að segja einhverjum öðrum frá þeim, þá eru þær svo djúft grafnar það þær vilja bara ekki koma út. Ég finn að þær eru þarna, ég get séð þær og fundið af þeim liktina, en að ég geti komið almennilega þeim frá mér? Ó nei… þar tekur við móðurkölkunnin. Ég verð að gjöra svo vel að, annað hvort fletta upp í bók eða blaði, eða öðru því sem upplýsingarnar komu upprunalega, eða sætta mig við þessa fötlun og draga mig í hlé. …Tja… eða bara halda áfram á sömu braut, að bulla eitthvað eftir (götóttu) minni og vona að einginn fatti neitt …sem auðvitað flestir gera… og í framhaldi af því fara hjá sér og hafa það á tilfinningunni að allir haldi að maður sé fífl….

…En alla vega samkvæmt fjöldamörgum umræðum á hinu ágæta barnalandi hef ég góða afsökun eða ‘sjúkdómsgreiningu’ ….móðurkölkun.