Jæja, nú er þessi vika að verða búin. Helgi Fannar er farinn til Akureyrar til að fara á Söngvakeppni Framhaldsskkólanna og Marín farin til Valda síns. Það virðist bara hálftómlegt í kotinu þó svo að við séum fimm eftir.

Ég er búin að vera eitthvað svo andlaus í dag í grafíkinni og öllu vefstöffinu (vinnunni) að afrakstur dagsins í dag er nú ekki upp á marga fiska. Kannski er skortur á næilega löngum svefni í vikunni farinn að segja til sín en þetta er ein af þeim vikum (sem raunar hafa verið nokkrar í röð upp á síðkastið) þar sem maður dauðöfundar fólk sem leggst bara upp í rúm og sofnar strax. Það er nefnilega þannig með mig að þó að ég sé drullu sifjuð er eins og um leið og ég legg höfuðið á koddann “vakna” ég bara og er ekkert sifjuð lengur og maður sofnar bara ekkert fyrr en eftir dúk og disk sama hvað maður reynir.